Leik Afríku og KFR í 4. deild karla í knattspyrnu verður framhaldið á föstudagskvöld, en leikurinn var flautaður af eftir níu mínútur í gærkvöldi vegna óláta þjálfara Afríku.
Sunnlenska.is greindi fyrst frá málinu hér.
Dómari leiksins mat aðstæður þannig að ekki væri hægt að halda leik áfram vegna utanaðkomandi truflunar, þar sem þjálfari Afríku hélt afram að stjórna liði sínu eftir að hann hafði fengið brottvísun.
KSÍ hefur fjallað um málið og samkvæmt reglugerðum sambandsins er niðurstaðan sú að leikurinn skuli hefjast aftur frá 9. mínútu föstudaginn 30. júní kl. 20:00 á Hertz vellinum.
KSÍ hefur ekki gefið upp hver verður dómari leiksins á föstudagskvöld, en liðunum er gert að vera með sama byrjunarlið og stillt var upp í gærkvöldi.
Jónas Bergmann Magnússon, formaður meistaraflokksráðs KFR, er allt annað en sáttur við þessa niðurstöðu.
„Það er verið að refsa okkur fyrir fíflalæti Afríkumanna og klaufaskap dómarans en KSÍ er greinilega ekki á sama máli. Við eigum að vera með sama byrjunarlið en það er erfitt í 4. deildinni þegar menn eru búnir að gera ráðstafanir á föstudagskvöldi. Þetta er ekki atvinnumannadeild. Það hefði að minnsta kosti verið hægt að hafa samráð við okkur um hvenær hentaði að spila þennan leik fyrst það var niðurstaðan,“ segir Jónas í samtali við fotbolti.net.
„Mér finnst KSÍ einfaldlega vera að refsa liði sem kemur ekki nálægt þessu máli. Það hefði mátt sýna fordæmi þar sem svona hegðun er ekki látin viðgangast.“