Selfoss tapaði naumlega fyrir Leikni Fáskrúðsfirði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag en liðin mættust í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði.
Leiknismenn byrjuðu betur í leiknum og komust yfir strax á 8. mínútu. Selfyssingar sóttu talsvert eftir markið en náðu ekki að koma boltanum yfir marklínuna í fyrri hálfleik. Staðan var 1-0 í leikhléi.
Kenan Turudija jafnaði metin fyrir Selfoss þegar síðari hálfleikur var rúmlega hálfnaður eftir sendingu frá Þór Llorens Þórðarsyni. Selfyssingar héldu áfram að sækja í kjölfarið en fengu mark í andlitið þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum.
Ansi svekkjandi niðurstaða en með sigrinum tóku Leiknismenn toppsætið af Selfossliðinu, sem situr nú í 2. sæti með 13 stig.