Leikplanið fauk út í veður og vind

Valdís Una Guðmannsdóttir var stigahæst Selfyssinga með 27 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Gengi kvennaliðs Selfoss í körfubolta hefur ekki verið gott síðustu vikur í 1. deildinni en í kvöld tapaði liðið fjórða leiknum í röð þegar það heimsótti Keflavík-b.

Það var reyndar allt í lukkunnar velstandi framan af leik, Selfoss komst í 9-15 og leiddi 18-23 að loknum 1. leikhluta. Keflavík-b komst yfir í 2. leikhluta en Selfoss skoraði síðustu 11 stigin í fyrri hálfleik og staðan var 32-41 í leikhléi.

Bæði lið sýndu fína baráttu í 3. leikhluta en Selfoss hélt forystunni og í upphafi þess fjórða hafði liðið gott forskot, 51-63. Þá fauk leikplanið hjá liðinu út í veður og vind og Selfoss skoraði aðeins sex stig á síðustu sjö mínútum leiksins, á meðan Keflvíkingar röðuðu stigum á töfluna. Keflavík-b gerði 28-6 áhlaup og tryggði sér öruggan sigur, 79-69.

Valdís Una Guðmannsdóttir var stigahæst Selfyssinga með 27 stig og 9 fráköst og Donasja Scott var framlagshæst með 21 stig og 14 fráköst.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en Keflavík-b á botninum með 4 stig.

Keflavík b-Selfoss 79-69 (18-23, 14-18, 16-16, 31-12)
Tölfræði Selfoss: Valdís Una Guðmannsdóttir 27/9 fráköst, Donasja Scott 21/14 fráköst, Anna Katrín Víðisdóttir 9/4 fráköst, Eva Rún Dagsdóttir 5/6 fráköst, Þóra Auðunsdóttir 3, Vilborg Óttarsdóttir 2/4 fráköst, Kolbrún Katla Halldórsdóttir 2.

Fyrri greinFylgdarakstur yfir Hellisheiði – Þrengslin lokuð
Næsta greinRöskun á skólahaldi vegna veðurs