Leikur kattarins að músinni

Ruud Lutterman var atkvæðamikill í dag. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Hamar og Hrunamenn áttust við í 1. umferð úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta í Hveragerði í dag.

Gengi liðanna var ólíkt í vetur, Hamar varð í 2. sæti í deildarkeppninni en Hrunamenn í 9. sæti og búnir að senda erlendu leikmennina sína heim. Það var því ekki búist við spennuleik í dag enda náði Hamar 20 stiga forskoti strax í 1. leikhluta og leiddi í hálfleik, 48-27. Munurinn jókst heldur betur í seinni hálfleiknum en lokatölur urðu 110-58.

Ruud Lutterman átti stórleik fyrir Hamar, skoraði 17 stig og tók 13 fráköst. Jose Aldana skoraði einnig 17 stig en Hamarsmenn fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum.

Hjá Hrunamönnum var Yngvi Freyr Óskarsson atkvæðamestur, hann skoraði 12 stig og tók 9 fráköst.

Liðin mætast næst á Flúðum á þriðjudaginn en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í einvíginu kemst áfram í úrslitakeppninni.

Tölfræði Hamars: Jose Aldana 17/6 stoðsendingar, Ruud Lutterman 17/13 fráköst, Maciek Klimaszewski 14/10 fráköst, Þorvaldur Orri Árnason 13/8 fráköst, Ragnar Jósef Ragnarsson 11, Óli Gunnar Gestsson 9/7 fráköst, Steinar Snær Guðmundsson 9, Sigurður Dagur Hjaltason 7, Arnar Dagur Daðason 7, Pálmi Geir Jónsson 6/8 fráköst.

Tölfræði Hrunamanna: Yngvi Freyr Óskarsson 12/9 fráköst, Þórmundur Smári Hilmarsson 11/9 fráköst, Dagur Úlfarsson 7, Eyþór Orri Árnason 5/5 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 5, Páll Magnús Unnsteinsson 4, Halldór F. Helgason 4, Sigurður Sigurjónsson 4, Aron Ernir Ragnarsson 4, Hringur Karlsson 2.

Fyrri greinTap í lokaumferðinni
Næsta greinMenning