Kvennalið Selfoss tapaði þriðja deildarleiknum í röð þegar Fylkir kom í heimsókn á JÁVERK-völlinn í kvöld. Lokatölur urðu 1-3.
Selfyssingar höfðu góð tök á leiknum stærstan hluta fyrri hálfleiks og gestirnir ógnuðu ekki að ráði. Magdalena Reimus fékk fyrsta almennilega færi leiksins á 26. mínútu þegar hún slapp ein innfyrir en Audrey Baldwin varði vel frá henni úr þröngri stöðu.
Fjórum mínútum síðar kom Lauren Hughes Selfyssingum yfir með geggjuðu marki. Hún óð upp að vítateig Fylkis, mundaði vinstri fótinn og lét vaða í þverslána og inn. Hennar sjötta mark í deildinni í sumar.
Selfyssingar áttu svo að komast tveimur mörkum yfir þegar Kristrún Antonsdóttir fékk dauðafæri á 37. mínútu en fékk boltann alein á fjærstöng eftir fyrirgjöf frá Hughes en skallaði framhjá.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Fylkiskonur byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og varamaðurinn Shu-o Tseng lét vaða að marki eftir rúmlega mínútu leik og jafnaði metin, 1-1.
Jöfnunarmark virkaði eins og magahögg fyrir Selfyssinga sem misstu taktinn algjörlega. Fylkiskonur voru meira með boltann en fengu fá færi á meðan þær vínrauðu sköpuðu lítið í sókninni. Magdalena var þó nálægt því að skora á 74. mínútu þegar hún slapp innfyrir og lyfti boltanum í þverslána og yfir.
Fylkir komst í 1-2 á 81. mínútu með marki eftir hornspyrnu. Boltinn barst á nærstöng þar sem Thelma Lóa Hermannsdóttir náði að pota honum innfyrir. Í kjölfarið reyndu Selfyssingar að skapa eitthvað fram á við en gekk ekki neitt. Gestirnir bættu hins vegar við þriðja markinu á 89. mínútu og þar var að verki Sandra Sif Magnúsdóttir með glæsilegu skoti utan af velli, yfir Chanté Sandiford í marki Selfoss.
Eftir leiki kvöldsins er keppni í Pepsi-deildinni hálfnuð þetta sumarið. Selfyssingar sitja í 7. sæti deildarinnar með 9 stig, en Fylkir fór upp í 6. sætið með sigrinum og hefur einu stigi meira.