Dómstóll Handknattleikssambands Íslands hefur úrskurðað að leikur Stjörnunnar-U og Selfoss í Grill66 deild kvenna skuli leikinn aftur en Selfyssingar kærðu framkvæmd leiksins.
Leiknum lauk með 29-29 jafntefli en rúmlega tveimur klukkutímum eftir leik breyttu dómarar leiksins úrslitunum í 30-29, Stjörnunni-U í vil, eftir að hafa farið yfir leikinn á myndbandsupptöku.
Vegna mistaka á ritaraborði fórst fyrir að skrá sautjánda mark Stjörnunnar-U til bókar og staðan á leikklukkunni var því röng þriðjung leiktímans. Það töldu Selfyssingar hafa mikil áhrif á það hvernig leikurinn spilaðist í framhaldinu og hvaða ákvarðanir væru teknar í leiknum af leikmönnum og þjálfurum.
Selfoss krafðist þess að úrslitin 29-29 skyldu standa, en til vara að leikurinn yrði spilaður aftur.
Í greinargerð Stjörnunnar til dómstólsins eru mistökin hörmuð og ber félagið fyrir sig að fáir sjálfboðaliðar fáist til starfa á leikjum, og þeir séu ungir að árum. Úrslitin 30-29 skuli þó standa, að mati Stjörnunnar.
Í ítarlegri niðurstöðu Gríms Sigurðssonar, dómara hjá dómstól HSÍ, er ekki fallist á kröfu Selfoss um að úrslitin 29-29 skuli standa en hann telur að líkur séu fyrir því að röng skráning á skortöflu hafi haft áhrif á úrslit leiksins og fellst á varakröfu Selfoss um að leikurinn skuli endurtekinn.