Þór Þorlákshöfn var í góðum málum framan af leiknum gegn Val í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld þegar liðin mættust að Hlíðarenda. Niðurstaðan varð hins vegar fjórtán stiga tap.
Leikurinn var jafn í 1. leikhluta og Styrmir Snær Þrastarson lokaði honum með þriggja stiga körfu sem tryggði Þór 14-18 forystu. Þór komst átta stigum yfir í upphafi 2. leikhluta en þá komu Valsmenn til baka og jöfnuðu 30-30 um miðjan leikhlutann. Staðan var 41-44 í hálfleik, Þór í vil.
Þórsarar héldu sínu striki í 3. leikhluta og náðu mest 14 stiga forystu, 46-60. Í síðasta fjórðungnum gekk hins vegar illa í sókninni hjá Þórsurum, þeir skoruðu aðeins tíu stig og spiluðu enga vörn því Valsmenn negldu niður 35 stigum og tryggðu sér 87-73 sigur.
Vincent Bailey var stigahæstur Þórsara með 32 stig, Halldór Hermannsson skoraði 14, Marko Bakovic 11, Vladimir Nemcok 5, Styrmir Snær, Ísak Perdue og Emil Karel Einarsson 3 og Ragnar Örn Bragason 2.
Þór er án stiga í 11. sæti deildarinnar eftir tvær umferðir.