Leikurinn hófst í Hveragerði en lauk í Kópavogi

Hamarskonur bregða á leik í „leikhléinu“ á Grýluvelli í gær. Mynd/Guðbjörg Rósa

Leikur Hamars og Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis í 2. deild kvenna í knattspyrnu í gær var flautaður tímabundið af á 18. mínútu vegna veðurs og vallaraðstæðna.

Leikurinn hófst kl. 15 í gær en Grýluvöllur í Hveragerði var gjörsamlega á floti í úrhellisrigningunni þannig að dómarinn ákvað að stöðva leikinn á átjándu mínútu. Þá var staðan 0-1 fyrir FHL.

Búningum leikmanna var hent í þurrkara í stutta stund og leikurinn var svo færður inn í íþróttahúsið Kórinn í Kópavogi þar hófst hann aftur rúmum tveimur klukkustundum síðar, og flautað var til leiks á mínútu átján. 

Gestirnir að austan reyndust sterkari í leiknum, þær bættu við tveimur mörkum í síðari hálfleik og Halldóra Birta Sigfúsdóttir innsiglaði 0-4 sigur þeirra með marki um miðjan seinni hálfleikinn.

Hamar er í 8. sæti 2. deildarinnar með 10 stig en FHL er í 3. sæti með 20 stig.

Fyrri greinMyndlistarnemar úr FSu sýna í Listagjánni
Næsta greinBjörguðu tveimur nautgripum upp úr haughúsi