Hamar/Þór vann öruggan sigur á B-liði Stjörnunnar í 1. deild kvenna í körfubolta í gær, þegar liðin mættust í Garðabænum.
Hamar/Þór tók leikinn strax í sínar hendur og náði fljótlega tíu stiga forskoti. Í upphafi 2. leikhluta var staðan orðin 8-26 en Hamar/Þór leiddi í leikhléi, 19-36. Munurinn hélst svipaður í 3. leikhluta en í þeim fjórða náði Stjarnan-B að minnka muninn talsvert. Forskot Hamars/Þórs var hins vegar öruggt og þær sunnlensku sigruðu að lokum 49-61.
Aniya Thomas var stigahæst hjá Hamri/Þór með 14 stig og 6 fráköst, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 12, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir skoraði 9 stig og tók 22 fráköst, Jóhanna Ágústsdóttir 8, Tijana Raca 7, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 6 stig og tók 5 fráköst, Elín Þórdís Pálsdóttir og Gígja Rut Gautadóttir 2.
Hamar/Þór er í 5. sæti deildarinnar með 16 stig en Stjarnan-B er í 7. sæti með 2 stig.