Leikur Hamars gegn Breiðablik í 1. deild karla í körfubolta var mjög kaflaskiptur. Hamar náði 17 stiga forskoti í fyrri hálfleik en tapaði að lokum með 10 stiga mun, 102-92.
Hamar byrjaði betur í leiknum og leiddi allan 1. leikhluta. Forskotið var ellefu stig í lok hans, 13-24. Hvergerðingar juku forskotið í sautján stig í 2. leikhluta, 22-39, en staðan var 41-50 í hálfleik.
Þriðji leikhluti var jafn og forskot Hamars hélst í kringum tíu stig en Breiðablik skoraði sex stig á móti einu á síðustu mínútum leikhlutans og minnkaði muninn í 67-73.
Blikar náðu að snúa leiknum endanlega sér í vil um miðjan 4. leikhluta með 11-2 leikkafla og breyttu þeir þar stöðunni úr 76-80 í 87-82, þegar þrjár og hálf mínúta voru eftir. Brandon Cotton setti niður tvö víti og minnkaði muninn í þrjú stig, 87-84, en þá skoruðu Blikar fimm stig í röð og kláruðu leikinn. Hamarsmenn reyndu allt hvað af tók að brjóta á Blikum undir lokin en þeir grænu voru funheitir á vítalínunni og skoruðu úr tíu vítaskotum á lokamínútunni.
Brandon Cotton var í sérflokki hjá Hamri í kvöld með 46 stig en Louie Kirkman skoraði 10 og tók 8 fráköst.
Hjá Blikum skoraði Hrunamaðurinn Atli Örn Gunnarsson 13 stig gegn sínum gömlu félögum.