Selfyssingar lögðu Skagamenn í Lengjubikar karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur voru 4-2. Í neðri deildunum töpuðu Ægir og Árborg sínum leikjum.
Selfyssingar lentu undir á tuttugustu mínútum leiksins í snjókomunni á Selfossi og staðan var 0-1 í hálfleik.
Svavar Berg Jóhannsson jafnaði metin fyrir Selfoss á 60. mínútu og þeir vínrauðu létu kné fylgja kviði og bættu við þremur mörkum á næstu tuttugu mínútum. Javier Lacalle kom Selfyssingum yfir á 65. mínútu og síðan bættu þeir Ingi Rafn Ingibergsson og Andy Pew við sínu markinu hvor.
Skagamenn klóruðu í bakkann á 85. mínútu og lokatölur urðu 4-2.
Í B-deildinni tapaði Ægir fyrir ÍR, 4-0 á Hertz-vellinum í neðra Breiðholti, en í efra Breiðholti tapaði Árborg 3-0 gegn KB í C-deildinni.