Hamar hefur komið sér þægilega fyrir í toppsæti A-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu, eftir sigur á GG á heimavelli í kvöld. Það var þó enginn þægindasigur.
Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en á 34. mínútu fékk leikmaður GG tvö gul spjöld og voru gestirnir því manni færri síðasta klukkutímann.
Þrátt fyrir það komust GG menn yfir strax í upphafi síðari hálfleiks, en á 70. mínútu jafnaði Hrannar Einarsson metin fyrir Hamar.
Hvergerðingar reyndu allt hvað af tók að sækja sigurinn og tókst það á 89. mínútu þegar Liam Killa skoraði sigurmarkið.
Hamar er í toppsæti A-riðilsins með 9 stig, og er eina liðið í riðlinum sem er með fullt hús stiga að loknum þremur umferðum.