
Virkilega sterk fjórgangskeppni fór fram í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum í kvöld þar sem 56 knapar tóku þátt. Í Suðurlandsdeildinni keppa áhuga- og atvinnumenn saman í forkeppni en svo eru úrslit fyrir hvorn flokk fyrir sig.
Í kvöld var það lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns sem stóð stigahæst eftir fjórganginn en Arnhildur Helgadóttir á Draumhyggju frá Eystra-Fróðholti endaði í 3. sæti í flokki atvinnumanna, Hekla Katharína Kristinsdóttir á Lilju frá Kvistum endaði í 10. – 11. sæti atvinnumanna, Rúna Björg Vilhjálmsdóttir á Aroni frá Þóreyjarnúpi endaði í 2. sæti í flokki áhugamanna og Rakel Nathalie Kristinsdóttir á Krás frá Árbæjarhjáleigu endaði í 7.-8. sæti í flokki áhugamanna.
Úrslit í báðum flokkum voru geysi spennandi og virkilega sterkir hestar sem öttu þar kappi. Í flokki atvinnumanna var það Þór Jónsteinsson á Frá frá Sandhól úr liði Efsta-Sels sem stóð uppi sem sigurvegari og í flokki áhugamanna var það Vilborg Smáradóttir á Sigri frá Stóra-Vatnsskarði úr liði Smiðjunnar Brugghúss.
Eftir fyrstu tvær greinar Suðurlandsdeildarinnar er það lið Byko sem leiðir stigakeppnina með 186 stig, í öðru sæti er Smiðjan Brugghús með 156 stig og þriðja sæti lið Húsasmiðjunnar með 153 stig.
Næsta grein er fimmgangur og fer hún fram í Rangárhöllinni á Hellu þann 30. mars.



