Í gærkvöldi fór fram lokakvöld Suðurlandsdeildar Cintamani í hestaíþróttum í Rangárhöllinni á Hellu. Fram fóru tvær greinar en keppt var í skeiði og tölti. Staðan fyrir lokakvöldið var hnífjöfn á meðal efstu tveggja liða en Nonnenmacher leiddi og þar á eftir kom Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún.
Það fór svo að lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns stóð uppi sem sigurvegari deildarinnar annað árið í röð, með 376 stig. Í öðru sæti var lið Nonnenmacher með 342 stig og Vöðlar/Snilldarverk/Sumarliðabær í því þriðja með 333 stig, eftir harða keppni.
Í skeiðinu voru margir frábærir sprettir en það fór svo að lið Húsasmiðjunnar og lið Black Crust Pizzeria voru jöfn í liðkeppninni. Bestu spretti kvöldsins áttu í flokki atvinnumanna Helga Una Björnsdóttir og Jarl frá Kílhrauni sem flugu í gegnum Rangárhöllina á tímanum 5,53 sek en þau kepptu fyrir lið Nonnemacher og í flokki áhugamanna Sanne Van Hezel á Völundi frá Skálakoti sem flugu í gegnum Rangárhöllina á tímanum 5,88 sek en þau kepptu fyrir lið Húsasmiðjunnar.
Keppnin í tölti var æsispennandi og hestakosturinn alveg hreint magnaður í báðum flokkum. Ljóst var að allt þyrti að ganga upp hjá liðum Nonnenmacher og Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns því baráttan um fyrsta sæti deildarinnar var ennþá hnífjöfn eftir skeiði.
Lið Töltrider sigraði liðakeppni í tölti sem var svo sannarlega viðeigandi. Lið Töltrider átti tvo knapa í úrslitum og tvo rétt fyrir utan. Elvar Þormarsson og Heilun frá Holtabrún lentu í 3.–4. sæti og Hjörvar Ágústsson og Öld frá Kirkjubæ enduðu í 9. sæti í flokku atvinnumanna. Brynjar Nói Sighvatsson og Urður frá Strandarhjáleigu lentu í 3. sæti og Þórunn Kristjánsdóttir á Dimmu frá Eystri-Hól voru næstu fyrir utan úrslit í flokku áhugamanna.
Ljóst var eftir töltkeppnina að lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns hafði sigrað deildina í ár en knapar þeirra sigruðu bæði flokk áhugamanna og atvinnumanna. Það voru þau Hekla Katharína Kristinsdóttir á Lilju frá Kvistum sem hlutu 7.67 sem sigruðu flokk atvinnumanna og Hermann Arason á Náttrúnu Ýr frá Herríðarhóli sem hlutu 7.40 sem sigruðu flokk áhugamanna.