Keppni í fimmgangi í Suðurlandsdeildinni í hestaíþróttum fór fram í Rangárhöllinni á Hellu í kvöld.
Það var lið Byko sem stóð uppi sem sigurvegari í fimmganginu og að loknu þriðja mótinu af fjórum á mótaröðinni hefur lið Byko einnig forystuna í heildarstigakeppninni.
Liðsmenn Byko náðu frábærum árangri í kvöld þar sem Maiju Maria Varis sigraði flokk áhugamanna á Evu frá Reykjadal og Herdís Rútsdóttir hafnaði í þriðja sæti í flokki atvinnumanna á Klassík frá Skíðbakka I. Af öðrum liðsmönnum lenti Árni Sigfús Birgisson í 8. sæti í flokki áhugamanna og Elin Holst á Spurningu frá Syðri-Gegnishólum í því tólfta. Helga Una Björnsdóttir á Byrjun frá Akurgerði sigraði í flokki atvinnumanna en þær keppa fyrir lið Kjarrs.
Lið Byko leiðir stigakeppnina með 278 stig, Árbæjarhjáleiga/Hjarðartún er í 2. sæti með 220 stig og lið Smiðjunnar brugghúss er í 3. sæti með 216,5 og stutt er í næstu lið þar á eftir.
Lokamót Suðurlandsdeildarinnar fer fram þann 11. maí næstkomandi þar sem keppt verður í tölti og skeiði.



