Í gærkvöldi fór fram keppni í fjórgangi í Suðurlandsdeild Cintamani í hestaíþróttum í Rangárhöllinni. Þetta var önnur keppni ársins í Suðurlandsdeildinni.
Það var lið Nonnenmacher sem stóð efst eftir kvöldið en liðsmenn þeirra voru í 1. og 6. sæti í flokki áhugamanna og 1. og 10.-11. sæti í flokki atvinnumanna.
Í úrslitum áhugamanna stóðu Birna Olivia Ödqvist og Tindur frá Árdal úr liði Nonnenmacher efst með einkunnina 6,93. Fast á eftir þeim fylgdu Vilborg Smáradóttir á Gná frá Hólateigi úr liði Black Crust Pizzeria og Elisabeth Marie Trost á Maísól frá Steinnesi en báðar voru þær með 6,87 í einkunn.
Helga Una Björnsdóttir og Ósk frá Stað úr liði Nonnenmacher sigruðu í úrslitum atvinnumanna með einkunnina 7,10. Í 2. sæti urðu Stella Sólveig Pálmarsdóttir og Stimpill frá Strandarhöfði úr liði Hemlu/Hrímnis/Strandarhöfuðs með 7,03 og jafnir í 3.-4. sæti urðu Vignir Siggeirsson á Kveikju frá Hemlu II úr liði Hemlu/Hrímnis/Strandarhöfuðs og Ólafur Ásgeirsson á Fengsæl frá Jórvík úr liði Vöðla/Snilldarverks/Sumarliðabæjar en báðir fengu þeir einkunnina 6,97.
Lið Nonnenmacher með gott forskot
Eftir tvær greinar er staðan í liðakeppninni þannig að lið Nonnenmacher er í 1. sæti með 185,5 stig, þar á eftir er lið Árbæjarhjáleigu/Hjarðartúns með 159 stig og í 3. sæti lið Vöðla/Snilldarverks/Sumarliðabæjar með 141 stig. Keppnin er hörð þar fyrir neðan en þrettán lið eru skráð til þátttöku í deildinni í vetur.
Það er stutt í næstu grein en keppt verður í fimmgangi þriðjudaginn 4. apríl í Rangárhöllinni á Hellu.