Það var frábær stemmning í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi á laugardaginn þegar fimleikadeild Umf. Selfoss sýndi þrjár sýningar af Jólaævintýri Línu Langsokks fyrir troðfullu húsi.
Þátttakendur í sýningunni voru yfir 400 talsins á aldrinum frá fimm ára til fertugs.
Þjálfarar fimleikadeildarinnar stóðu að sýningunni ásamt elstu iðkendum en gríðarlega mikil vinna var lögð í leikmynd og búninga auk þess að æfa og setja saman fjölmörg hópatriði í sýningunni.
Sýningin er orðin fastur liður í jólaundirbúningi deildarinnar, foreldra, velunnara og áhugafólks. Það vekur athygli að ef fjöldi áhorfenda og sýnenda er lagður saman slagar fjöldinn hátt í helming íbúa Selfossbæjar.
Í lok fyrstu sýningarinnar var Hvergerðingurinn Helga Hjartardóttir útnefnd fimleikamaður ársins hjá fimleikadeildinni og tekur hún við titlinum af Örnu systur sinni sem hampaði honum í fyrra.