Líni og Sigurjón í baráttunni – Bræðurnir leiða jeppaflokkinn

Alþjóðlega rallkeppnin Rally Reykjavík hófst í dag þegar eknar voru sérleiðir í Hafnarfirði, á Reykjanesi og í Kópavogi. Keppendur fóru mátulega hratt af stað í undirbúningi fyrir strembinn morgundag.

Að loknum fjórum sérleiðum eru Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson í 4. sæti á Subaru Impreza, 1:26 mín á eftir Daníel og Ástu Sigurðarbörnum, sem leiða keppnina.

Heimir Snær og Halldór Gunnar Jónssynir á Jeep Cherokee eru í tíunda sæti og hafa forystu í jeppaflokki. Það verður að teljast gott enda eru þeir að venja sig við ýmsar breytingar sem búið er að gera á bílnum frá því í fyrra.

Síðust af sunnlensku áhöfnunum eru Örn Dali Ingólfsson og Óskar Jón Hreinsson sem reka lestina á Trabant. Þeir eru 18:03 mín á eftir fyrsta bíl en hafa ekið af miklu öryggi.

Keppnin heldur áfram á morgun en þá verður meðal annars ekið í nágrenni Heklu og um Dómadal. Áhugasamir geta einnig fylgst með þjónustuhléi á Hellu í hádeginu á morgun, en fyrsti bíll rennir í hlað á Hellu um klukkan 12:40.


Show-maður Þór Líni tók vel á Imprezunni á Hvaleyrarvatninu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Skynsemin ræður Örn Dali og Óskar Jón á öruggri siglingu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinAllir öruggir heim
Næsta greinGleðidagur í FSu