Mílan tapaði naumlega fyrir Þrótti Reykjavík í hörkuleik í Grill 66 deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur í Vallaskóla urðu 19-20.
Bæði lið lögðu allt í sölurnar í leiknum í kvöld sem var jafn og spennandi. Mílan náði góðu forskoti um miðjan fyrri hálfleikinn, komst í 10-4 þegar tuttugu mínútur voru liðnar og staðan var 13-9 í leikhléi.
Upphaf síðari hálfleiksins var hins vegar ekki gott hjá Mílumönnum og þegar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum hafði Þróttur jafnað 16-16. Lokakaflinn einkenndist af mikilli baráttu þar sem lítið var skorað. Þegar fimm mínútur voru eftir var staðan 18-18 en Þróttarar voru skrefi á undan á síðustu mínútunum og skoruðu næstu tvö mörk, 18-20, áður en Sigurður Már Guðmundsson skoraði síðasta mark leiksins fyrir Míluna.
Gunnar Páll Júlíusson, Atli Kristinsson og Sigurður Már voru markahæstir hjá Mílunni með 4 mörk, Örn Þrastarson skoraði 2 og þeir Páll Bergsson, Ari Sverrir Magnússon, Hannes Höskuldsson, Trausti Elvar Magnússon og Ómar Vignir Helgason skoruðu allir 1 mark.
Sverrir Andréasson átti góðan leik í marki Mílunnar og varði 16/1 skot.
Mílan bíður því enn eftir sínum fyrsta sigri í deildinni, en liðið hefur 1 stig í 8. sæti.