„Ég sé margt rosalega gott við þennan leik,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir 32-38 tap gegn FH í dag.
Liðin mættust á Selfossi í N1 deild karla þar sem FH vann að lokum öruggan sigur eftir að Selfyssingar höfðu andað ofan í hálsmálið á þeim allan leikinn.
„Þótt að þeir séu með einhverja svaka kalla í sínu liði þá sá ég voðalega lítinn mun á liðunum í dag,“ sagði Sebastian í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Mér fannst sóknarleikurinn ganga fínt upp. Það hafa öll liðin í deildinni reynt að klippa Ragga út en samt skorar hann 10 til 15 mörk í leik, þannig að við erum með lausnir við öllu sem andstæðingurinn kemur með.
Varnarleikurinn var oft á tíðum að ganga vel upp. Við gleymdum okkur stundum og vorum seinir til baka en ég sé framfarir í vörninni. Markvarslan hefði mátt vera betri en hún er að batna. Það er eini þátturinn sem okkur vantar í dag til þess að vinna leiki. Nú lögum þennan síðasta þátt fyrir næsta leik og skilum sigri,“ sagði Sebastian en Selfyssingar mæta Aftureldingu á útivelli í síðasta leik fyrir jóla nk. fimmtudag.
„Þeir fengu óverðskuldaðan sigur hér í fyrri leiknum og við ætlum að skila því til baka,“ sagði Sebastian að lokum.