Selfoss lyfti sér upp í 4. sæti Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu með sætum sigri á KR á Selfossvelli í kvöld, 1-0.
„Við vorum ekki að spila vel og vorum þungar og þreyttar. Þetta var ljótt, en við tökum það og erum mjög sáttar við þessi þrjú stig. Liðið hjálpaðist allt að við þetta verkefni. Þetta var bara vinnusigur,“ sagði Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Leikurinn var algjörlega tíðindalaus fyrstu tuttugu mínúturnar en þá fengu Selfyssingar aukaspyrnu á ákjósanlegum stað. Anna María Friðgeirsdóttir lyfti boltanum inn á teiginn þar sem Hólmfríður Magnúsdóttir renndi sér á boltann á fjærstönginni og skoraði.
KR sótti í sig veðrið eftir mark Selfoss, án þess þó að fá teljandi færi. Heimakonur voru nær því að bæta við marki en á 43. mínútu tók Hólmfríður góðan snúning í teignum og náði hörkuskoti sem Birna Kristjánsdóttir varði glæsilega. Frákastið fór á Selfyssinga og boltinn barst til Grace Rapp sem hamraði hann yfir markið af stuttu færi.
Staðan var því 1-0 í hálfleik og á 53. mínútu var Þóra Jónsdóttir nálægt því að tvöfalda forystu Selfoss þegar hún átti þrumuskot í þverslána. Þetta var nánast það síðasta sem sást til Selfoss í leiknum því KR stýrði skútunni megnið af seinni hálfleiknum en Selfossvörnin var þétt og gaf aðeins eitt færi á sér. Það var reyndar dauðafæri en Sandra Dögg Bjarnadóttir fékk boltann í góðri stöðu á 75. mínútu og skaut í stöng.
Leikurinn fjaraði út eftir þetta og Selfossliðið fagnaði vel að lokum. Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar með 10 stig en liðin í næstu sætum eiga leik til góða á þær vínrauðu.