Lofar góðu fyrir komandi keppnistímabil

Liðsmenn HSK/Selfoss náðu góðum árangri á Reykjavíkurleikunum sem fram fóru um síðustu helgi í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal.

Mótið er boðsmót þar sem aðeins þeim sem hafa náð tilskildum árangri er boðið að taka þátt. Flest besta frjálsíþróttafólk landsins var mætt til leiks ásamt átta erlendum keppendum.

Frá HSK/Selfoss var níu keppendum boðið til keppni og mættu fjórir þeirra til leiks. Árangurinn lofar góðu fyrir komandi innanhússkeppnistímabil en uppskeran var silfur, tvö brons og persónulegar bætingar.

Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, keppti í 800 m hlaup og náði sínum besta tíma á árinu, 1:56,56 mín. Kristinn var ekki langt á eftir silfur- og gullverðlaunahöfunum í hlaupinu.

Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdælum, keppti í tveimur greinum. Hann bætti sig hressilega í 60 m grindahlaupi er hann kom þriðji í mark á 9,26 sek, en hann átti áður 9,65 sek. Hreinn stökk svo sitt besta langstökk sem af er ári er hann sveif 6,16 m og varð í 5. sæti.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir, spretthlaupari frá Selfossi, varð önnur í 60 m hlaupi er hún kom í mark á 8,47 sek sem er besti tími ársins hjá henni, var búinn að hlaupa á 8,54 sek áður.

Haraldur Einarsson, spretthlaupari úr Vöku, er að komast í gott form. Hann keppti í 60 m hlaupi og kom fjórði í mark á besta tíma sínum á árinu 7,19 sek, aðeins 8 brotum frá hans persónulega meti.

Næsta verkefni frjálsíþróttafólksins er Stórmót ÍR sem fram fer um næstu helgi og er fjölmennasta frjálsíþróttamót landsins.

Fyrri greinSelfoss vann gull og brons á Reykjavíkurleikunum
Næsta greinÞungfært víða í uppsveitum