Hamar tapaði naumlega þegar liðið fékk Grindavík í heimsókn í 1. deild kvenna í körfubolta í gærkvöldi, 63-66.
Leikurinn var jafn framan af en í 2. leikhluta gerði Hamar 14-2 áhlaup og leiddi 32-24 í hálfleik. Grindavík minnkaði muninn í 3. leikhluta en í upphafi þess fjórða var staðan 49-45.
Fjórði leikhluti var spennandi en Hamar var með gott forskot, 61-54, þegar fjórar og hálf mínúta var eftir af leiknum. Síðustu þrjár mínúturnar fór hins vegar allt í baklás hjá Hvergerðingum og Grindavík skoraði síðustu níu stig leiksins.
Álfhildur Þorsteinsdóttir átti góðan leik fyrir Hamar og frákastaði grimmt. Þórunn Bjarnadóttir lék einnig vel og var stigahæst ásamt Álfhildi með 13 stig.
Hamar er í 6. sæti 1. deildarinnar með 12 stig og fer hvorki ofar eða neðar á töflunni en nú er ein umferð eftir af deildarkeppninni.
Tölfræði Hamars: Þórunn Bjarnadóttir 13/8 fráköst, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 13/18 fráköst/8 stoðsendingar, Fríða Margrét Þorsteinsdóttir 11, Helga Sóley Heiðarsdóttir 6, Vilborg Óttarsdóttir 6, Margrét Hrund Arnarsdóttir 4/4 fráköst, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 4, Ragnheiður Magnúsdóttir 4, Katrín Eik Össurardóttir 2/4 fráköst.