Lokakaflinn lakur á Ísafirði

Patrekur Þór Öfjörð var markahæstur Selfyssinga. Ljósmynd/Selfoss

Selfoss heimsótti Hörð á Ísafjörð í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Eftir verulega kaflaskiptan leik höfðu heimamennirnir betur, 34-31.

Jafnræði var með liðunum fyrstu tíu mínúturnar en manni færri náði Hörður að koma sér upp þriggja marka forskoti, 8-5, um miðjan fyrri hálfleikinn. Selfyssingar luku fyrri hálfleik hins vegar á jákvæðum nótum og staðan var 15-14 í hálfleik.

Hörður skoraði fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik og breytti stöðunni í 18-14 en Selfyssingar lögðu ekki árar í bát og jöfnuðu 20-20. Eftir það var leikurinn í járnum en þegar rúmar sjö mínútur voru eftir af leiknum komst Selfoss í tveggja marka forystu, 27-29. Þá fór allt í skrúfuna hjá þeim vínrauðu og Hörður gerði út um leikinn með því að skora sex mörk í röð.

Patrekur Þór Öfjörð var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk og þeir Jónas Karl Gunnlaugsson, Guðjón Baldur Ómarsson og Hákon Garri Gestsson komu næstir honum með 4 mörk. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 4 skot í marki Selfoss (og skoraði 2 mörk) og Alexander Hrafnkelsson varði 3.

Fyrri greinBetra umferðarflæði er öryggismál fyrir alla íbúa Árnessýslu
Næsta greinSelfoss tryggði sér bikarinn eftir framlengingu