Eftir sjö tapleiki í röð fundu Ægismenn loksins hamingjuna aftur þegar þeir fengu KFG í heimsókn í Þorlákshöfn í kvöld. Á sama tíma fengu Selfyssingar flengingu úr hendi Þróttar Vogum.
Það var hart barist á Þorlákshafnarvelli í kvöld. Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik og raunar allt fram á 82. mínútu. Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði þá eina mark leiksins eftir góðan undirbúning Toma Ouchagelov. Þessi 1-0 sigur var Ægismönnum sannarlega langþráður og þeir fjarlægjast fallsvæðið.
Selfyssingar fengu skell í Vogunum þar sem þeir heimsóttu Þrótt. Eftir markalausan fyrri hálfleik tóku Þróttarar leikinn í sínar hendur og skoruðu tvívegis á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Aron Fannar Birgisson minnkaði muninn fyrir Selfoss þegar tíu mínútur voru eftir en Þróttarar bættu við tveimur mörkum á lokakaflanum og sigruðu 4-1.
Selfoss í góðum málum
Þetta var aðeins þriðja tap Selfoss í deildinni í sumar og þrátt fyrir það er liðið með öruggt forskot í toppsætinu. Selfoss er með 35 stig en þar á eftir koma Þróttur Vogum, Víkingur Ó og Völsungur með 26 stig. Ægismenn lyftu sér upp fyrir KFG með sigrinum og sitja nú í 8. sæti með 18 stig.