Selfyssingar lyftu sér upp í 3. sæti Lengjudeildar karla í knattspyrnu, um tíma í það minnsta, með góðum 2-1 sigri á Þór Akureyri á Selfossvelli í dag.
Leikurinn byrjaði illa fyrir Selfyssinga því Þórsarar voru komnir í 0-1 eftir aðeins 17 sekúndur, eftir misskilning í vörn Selfoss. Leikurinn var í járnum eftir það en Selfyssingar færðu sig smátt og smátt upp á skaftið og á 16. mínútu jafnaði Hrvoje Tokic af vítapunktinum eftir að brotið hafði verið á Gonzalo Zamorano í vítateignum.
Áhugavert atvik varð á 36. mínútu þegar Tokic slapp innfyrir og varnarmaður Þórs togaði hann niður við vítateigslínuna. Aukaspyrna og réttilega rautt spjald, en Erlendur Eiríksson dómari spjaldaði rangan Þórsara, sem lét sig þó hafa það að ganga af velli eftir langar rökræður.
Staðan var 1-1 í hálfleik en Selfoss byrjaði af krafti í seinni hálfleiknum. Markið lá í loftinu og það kom á 62. mínútu þegar markvörðurinn Stefán Þór Ágústsson tók eina af sínum hárnákvæmu spyrnum fram völlinn, beint á Gary Martin, sem kláraði færið í fyrstu snertingu. Alvöru mark.
Leikurinn fjaraði nokkuð út eftir þetta, Selfoss var meira með boltann en Þórsarar áttu líka sín færi og þurfti Stefán að taka á honum stóra sínum í tvígang í marki Selfoss.
Eftir fjóra leiki í röð án sigurs tóku Selfyssingar þrjú stig sem lyftu þeim upp um nokkur sæti, en liðin í kringum þá eiga öll leik til góða.