Selfoss vann langþráðan sigur í 1. deild karla í körfubolta í kvöld þegar Ármenningar komu í heimsókn á Selfoss. Á sama tíma töpuðu Hrunamenn heima gegn ÍA.
Selfoss byrjaði vel í leiknum gegn Ármanni og leiddi 18-7 að loknum 1. leikhluta en staðan var 40-36 í hálfleik. Ármenningar komust yfir í 3. leikhluta en Selfyssingar svöruðu jafn harðan fyrir sig og héldu forystunni allan 4. leikhluta. Lokatölur urðu 76-68.
Nýliðinn Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 34 stig og 11 fráköst, Ísak Júlíus Perdue skoraði 12 og Birkir Hrafn Eyþórsson 11, Vojtech Novak skoraði 9 stig og Ebrima Jassey Demba skoraði 5 stig, tók 9 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.
Hrunamenn voru betri í fyrri hálfleik gegn ÍA og leiddu 47-38 að loknum fyrri hálfleik. Skagamenn minnkuðu muninn í 3. leikhluta en Hrunamenn héldu forystunni þangað til sjö mínútur voru eftir að Skaginn komst yfir, 74-75. Gestirnir reyndust svo sterkari á lokakaflanum og sigruðu 91-98.
Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 34 stig, Aleksi Liukko skoraði 15 og tók 21 frákast og Eyþór Orri Árnason 10 auk þess sem hann sendi 9 stoðsendingar.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 6 stig en Hrunamenn í 10. sæti með 4 stig.