Meistaramóti Golfklúbbs Hellu lauk síðastliðinn laugardag eftir fjóra frekar blauta daga á Strandarvelli. Það rigndi nánast stanslaust á kylfingana, þar til um hádegi á laugardag.
Klúbbmeistarar 2014 eru mæðginin Andri Már Óskarsson og Katrín Björg Aðalbjörnsdóttir.
Andri Már sigraði í meistaraflokki á 291 höggi en hann lék best á öðrum degi þegar hann fór hringinn á 69 höggum. Katrín Björg sigraði í 1. flokki kvenna á 342 höggum en besti hringurinn hennar var einnig á öðrum degi, 82 högg.
Til gamans má geta að í meistaraflokki karla voru þrír keppendur en það voru feðgarnir Óskar Pálsson með synina Aðalbjörn Pál og Andra Má.