Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í sumar í 1. deild kvenna í knattspyrnu gegn Haukum . Leiknum lauk 2-1, en leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Björn Kristinn Björnsson, þjálfari liðsins, stillti því upp breyttu liði frá leiknum gegn Fram og setti tvo markahæstu leikmennina, Guðmundu Brynju Óladóttur og Katrínu Ýr Friðgeirsdóttur, á bekkinn. En Selfyssingar voru fyrir leikinn búnir að tryggja sér efsta sætið í riðlinum.
Selfoss komst yfir í fyrri hálfleik þegar að Karen Inga Bergsdóttir skoraði með skalla. „Þetta var allt í lagi hjá okkur í fyrri hálfleik. Það voru margar að spila í nýjum stöðum og einnig voru þrjár sem komu nýjar í byrjunarliðið,“ sagði Þóra Margrét Ólafsdóttir, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leikinn.
Staðan var 0-1 í hálfleik. Bæði liðin gerðu breytingar í seinni hálfleik. Haukar settu inn erlenda leikmenn sína og Selfyssingar bættu í sóknarleikinn. „Við vorum eiginlega bara ömurlegar í seinni hálfleik og þær sóttu grimmt,“ sagði Þóra Margrét.
Haukar jöfnuðu leikinn um miðjan hálfleikinn og allt stefndi í jafntefli. En þegar þrjár mínútur voru eftir skoraði heimamenn sigurmarkið.
Eftir leiki dagsins er ljóst að Selfyssingar mæta Kelfvíkingum í undanúrslitum 1. deildar. „Ég bjóst við því að við myndum mæta þeim. Mér líst alveg ágætlega á þá leiki, en þetta verður erfitt,“ sagði Þóra Margrét.
Liðið sem hefur betur í tveimur viðureignum tryggir sér sæti í Pepsi-deildinni næsta sumar. Fyrri leikur liðanna verður í Keflavík laugardaginn 27. ágúst kl. 14.