Selfyssingurinn Þórir Ólafsson er ekki í tuttugu manna æfingahópi fyrir HM í Katar sem Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handbolta, tilkynnti í dag.
Þórir hefur verið reglulega valinn í íslenska landsliðið síðustu ár en þarf að víkja nú. Það er hins vegar annar Selfyssingur sem leysir hann af í hægra horninu því Guðmundur Árni Ólafsson, leikmaður Mors-Thy, var valinn í hóp á sitt fyrsta stórmót.
„Þetta er eitthvað sem ég stjórna ekki og maður verður því að virða ákvörðun þjálfarans,“ sagði Þórir í samtali við Vísi í dag. „Auðvitað hefði maður viljað vera með enda tel ég mig enn vera í nógu góðan og í standi til þess.“
Aron tilkynnti Þóri þetta fyrir nokkrum dögum síðan og því hefur hann fengið tíma til að melta tíðindin.
„Maður er auðvitað spældur – það er ekki spurning. En nú dugir ekkert annað en að einbeita sér að Stjörnunni enda mikilvægur leikur í kvöld [gegn Fram í Olísdeild karla].“