Þórsarar sigruðu í baráttunni um Suðurland þegar liðið lagði FSu í Iðu á Selfossi í kvöld í 4. umferð Domino's-deildar karla í körfubolta. Lokatölur urðu 75-94.
„Þetta var geðveikt. Þetta er annað árið mitt hjá Þór, en þetta er í fyrsta sinn sem ég spila fyrir framan Græna drekann. Þeir stóðu aldeilis undir nafni, þeir voru frábærir. Leikurinn var líka stórskemmtilegur, jafn fram í fjórða leikhluta á móti erkifjendunum og það var æðislegt að klára þetta,“ sagði Ragnar Nathanaelsson, miðherji Þórs, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
„Maður var að berjast, bölva og blóta… svona eiga þessir leikir að vera. FSu eru erfiðir heim að sækja með frábærar skyttur en við teljum okkur kunna að sigra,“ sagði Ragnar ennfremur og hrósaði stemmningunni í húsinu.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég sé FSu með stuðningsmannasveit og þótt þeir hafi komið seint þá voru þeir með læti og það er geðveikt þegar tvær stuðningsmannasveitir eru að rífast í stúkunni og allt er einhvernveginn í gangi. Svona eiga bara allir leikir að vera. Það eru þessir leikir sem gera körfuboltann að þessari æðislegu lífsreynslu sem hann er.“
Hörkuspenna fram í 4. leikhluta
Leikurinn var jafn og spennandi fyrstu þrjá fjórðungana. Liðin skiptust á að taka áhlaup og áhorfendur skemmtu sér hið besta. Græni drekinn var vaknaður úr dvala og studdi Þórsliðið og karlalið Selfoss í handbolta var með trommurnar hinu megin og studdi FSu. Fullt hús og hörkustemmning.
Staðan var 40-42 í hálfleik eftir að Vance Hall hafði lætt niður tveggja stiga skoti um leið og vallarklukkan gall. Jafnræðið hélt áfram í 3. leikhluta og þegar sá fjórði hófst var staðan 63-64, Þór í vil.
Leikur FSu hrundi í 4. leikhluta á meðan Þórsarar stigu upp og litu hrikalega vel út. Þór gerði 13-3 áhlaup í upphafi fjórðungsins þar sem Vance Hall raðaði niður körfunum. Munurinn hélst í tíu stigum þar til tvær mínútur voru eftir. Þá skoraði FSu liðið ekki meira og Þórsarar kláruðu leikinn sannfærandi.
Nat-vélin langsterkust
Besti maður vallarins var Ragnar Nathanaelsson með tröllatvennu og risaframlag, 23 stig, 21 frákast og 38 í framlagseinkunn. Christopher Anderson var öflugastur í liði FSu, skoraði 38 stig og var eini leikmaðurinn sem vogaði sér að sækja á Ragnar í teignum.
Tölfræði FSu: Christopher Anderson 36 stig/8 fráköst, Cristopher Caird 12 stig/8 fráköst, Ari Gylfason 10stig/8 fráköst/5 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 9 stig, Gunnar Ingi Harðarson 8 stig/4 fráköst, Maciej Klimaszewski 6 fráköst.
Tölfræði Þórs: Vance Hall 28 stig/7 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 23 stig/21 fráköst/3 varin skot, Ragnar Örn Bragason 22 stig, Baldur Þór Ragnarsson 9 stig/4 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 6 stig/7 fráköst, Emil Karel Einarsson 3 stig/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3 stig.