Þór Þ vann magnaðan sigur á Keflavík í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld, 88-83, í Þorlákshöfn. Þór leiðir nú 2-0 í einvíginu og þarf einn sigur í viðbót til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Þórsarar byrjuðu vel í leiknum, náðu strax góðu forskoti í 2. leikhluta en Keflvíkingar bitu frá sér fyrir hálfleik og staðan var 47-37 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var æsispennandi, Keflvíkingar nöguðu niður forskot Þórs jafnt og þétt og í upphafi 4. leikhluta leiddu gestirnir 68-70. Þá tóku Þórsarar við sér og settu niður nokkra risastóra þrista til þess að tryggja sér forystuna aftur. Taugarnar voru þandar á lokakaflanum og Keflvíkingar önduðu hressilega niður um hálsmálið hjá Þórsurum á lokamínútunni en vel studdir af Græna drekanum héldu Þórsarar haus og fögnuðu sigri.
Adomas Drungilas átti frábæran leik í kvöld, skoraði 29 stig og tók 7 fráköst. Larry Thomas var sömuleiðis öflugur með 20 stig og Styrmir Snær Þrastarson sýndi úr hverju hann er gerður með 14 stigum og mögnuðum tilþrifum á köflum.
Þriðji leikurinn í einvíginu fer fram í Keflavík á þriðjudagskvöld.
Tölfræði Þórs: Adomas Drungilas 29/7 fráköst, Larry Thomas 20/9 fráköst/5 stoðsendingar, Callum Lawson 14/5 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 14/6 fráköst/5 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 4/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3.