Magnús Íslandsmeistari í flokki útbúinna jeppa

Eins og venjulega náðu Sunnlendingar góðum árangri í akstursíþróttum á árinu. Mesta afrekið íþróttinni vann Selfyssingurinn Magnús Bergsson þegar hann varð Íslandsmeistari í sandspyrnu í útbúnum jeppaflokki.

Auk þess setti Magnús Íslandsmet í flokknum, fór sprettinn á 4,104 sekúndum. Sandspyrnubraut er 100 yarda (91,44 metrar) löng. Vélin í jeppa Magnúsar er Chevrolet V-8; 572 rúmþumlungar sem samsvarar 9,4 lítrum (9400 c.c.) og gefur af sér allt að 900 hestöfl.

Í kvartmílunni setti Ragnar S. Ragnarsson fimmta Íslandsmetið sitt á ferlinum þegar hann fór kvartmíluna (402 metra) á 11,864 sek. á 182 kílómetra endahraða. Ragnar keppir á 1966 árgerðinni af Dodge Charger með 530 hestafla Dodge V-8 vél sem er 451 rúmþumlungar (7,4 lítrar).

Fleiri Sunnlendingar fögnuðu góðum sigrum á árinu en eins og sunnlenska.is hefur greint frá áður varð Guðmundur Arnarsson Íslandsmeistari í Go-Kart og Þór Líni Sævarsson var valinn nýliði ársins í rallinu.

Fyrri greinHSu bygging kemst til þriðju umræðu
Næsta greinHamar úr leik í bikarnum