Árborg vann öruggan sigur á Afríku í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur á Selfossvelli urðu 6-0.
Árborgarar léku á als oddi í fyrri hálfleik. Hartmann Antonsson kom þeim fljótlega í 1-0 og í kjölfarið fylgdu tvö mörk frá Magnúsi Helga Sigurðssyni. Ingvi Rafn Óskarsson skoraði fjórða markið úr aukaspyrnu áður en Magnús innsiglaði þrennuna með marki af vítapunktinum undir lok fyrri hálfleiks.
Staðan var 5-0 í leikhléi en seinni hálfleikurinn var mun rólegri, að minnsta kosti hvað varðar markaskorun. Ingvi Rafn bætti við öðru aukaspyrnumarki um miðjan seinni hálfleikinn og þar við sat, lokatölur 6-0.
Þetta var fyrsti sigur Árborgar í Lengjubikarnum í vor en liðið er með 3 stig í 3. sæti riðilsins.