Árborg vann mikilvægan sigur á Berserkjum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld en liðin mættust á Víkingsvellinum í Fossvogi.
Magnús Ingi Einarsson kom Árborg yfir strax á 6. mínútu og staðan var 0-1 í leikhléi. Magnús endurtók leikinn á 2. mínútu seinni hálfleiks og í kjölfarið opnuðust allar flóðgáttir.
Þegar upp var staðið hafði Magnús Ingi skorað fjögur mörk ásamt því að Ingi Rafn Ingibergsson, Aron Freyr Margeirsson og Hartmann Antonsson komu boltanum í netið og Árborg sigraði 7-0.
Árborg er með 26 stig í 2. sæti A-riðils en Berserkir eru í 7. sæti með 12 stig. Toppbaráttan í riðlinum er hörð og enn eru fjögur lið að berjast um efstu tvö sætin. Árborgarar standa vel að vígi eftir úrslit kvöldsins en þurfa einn sigur til viðbótar til að tryggja sig inn í úrslitakeppnina.