Maciej Majewski, markvörður Knattspyrnufélags Rangæinga, höfuðkúpubrotnaði í leiknum gegn KF í dag en er á batavegi.
Majewski fékk þungt höfuðhögg undir lok fyrri hálfleiks þegar hann lenti í samstuði við sóknarmann KF. Í kjölfarið fékk hann flogakast og átti erfitt með andardrátt.
Leikmönnum beggja liða var mjög brugðið enda var Majewski farinn að blána og með skerta meðvitund.
Lögreglumaður sem fylgdist með leiknum kom strax á vettvang ásamt hjúkrunarkonu úr hópi áhorfenda og sjúkrateymi gestaliðsins. Kallað var samstundis á sjúkrabíl sem flutti Majewski með hraði á slysadeild í Reykjavík.
Lárus Viðar Stefánsson, þjálfari og leikmaður KFR, sagði í samtali við sunnlenska.is í kvöld að Majewski sé ekki illa brotinn en flísast hafi úr höfuðkúpunni auk þess sem hann sé mjög bólginn.
Majewski verður á sjúkrahúsi í nótt og fer í frekari rannsóknir á morgun en Lárus segir að fyrstu tilmæli lækna segi að Majewski eigi að taka því rólega næstu þrjá mánuðina í það minnsta.