Malmö eða Moskva hjá Selfyssingum

Íslandsmeistarar Selfoss fara til Malmö eða Moskvu í vetur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar mæta HK Malmö frá Svíþjóð eða HC Spartak frá Rússlandi í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta í október.

Dregið var í fyrstu tvær umferðirnar í EHF-bikarnum í morgun. Selfoss náði góðum árangri í keppninni í fyrra og kemur því beint inn í 2. umferðina í ár.

Spartak verður að teljast sigurstranglegra liðið úr 1. umferðinni en liðið var í efri styrkleikaflokknum og Malmö í þeim neðri.

Spartak Moskva er eitt þekktasta íþróttafélag Rússlands en karlalið félagsins í handbolta var sett á laggirnar árið 2017. Spartak varð deildarmeistari í Rússlandi á síðasta tímabili en varð af Rússlandsmeistaratitlinum eftir einvígi við Medvedi. Spartak hefur haft reynda landsliðsmenn innan sinna raða, meðal annars hægri hornamanninn Dmitry Kovalev og línumanninn Egor Evdokimov.

Malmö varð í 2. sæti í deildarkeppninni í Svíþjóð á liðnu tímabili, á eftir Teiti Erni Einarsyni og félögum í Kristianstad. Liðið féll úr úrslitakeppninni í 8-liða úrslitum gegn meisturum Savehof.

Leikirnir í 2. umferðinni fara fram fyrstu tvær helgarnar í október.

Komist Selfyssingar í 3. umferðina bíða stórlið handan við hornið, til dæmis þýsku liðin Magdeburg, Rhein-Neckar Löwen, Melsungen og Füchse Berlin.

Fyrri grein„Betri aðilinn allan leikinn“
Næsta greinGjöf til allra leikskólabarna