Á aðalfundi Ungmennafélags Hrunamanna, sem fram fót í gærkvöldi, var frjálsíþróttamaðurinn Máni Snær Benediktsson útnefndur íþróttamaður ársins 2017.
Máni Snær er mjög efnilegur og fjölhæfur íþróttamaður sem hefur verið í stöðugri framför. Hans sterkustu greinar eru hástökk og hlaup. Máni Snær náði fjórum Íslandsmeistaratitlum í flokki 15 ára pilta á árinu 2017. Hann varð Íslandsmeistari í hástökki innanhúss þegar hann stökk 1,75 m, Íslandsmeistari í 3000m hlaupi utanhúss er hann hljóp á tímanum 9:55,49 mín og Íslandsmeistari í boðhlaupi með sveitum HSK, bæði innan- og utanhúss. Í 3000m hlaupinu á Meistaramótinu setti hann nýtt HSK met í flokki 15 ára. Á árinu setti Máni einnig HSK-met með boðhlaupsveit sinni.
Auk þessa hefur Máni Snær verið valinn í Úrvalshóp FRÍ fyrir árangur sinn í 3000 m hlaupi. Ekki vantaði hann mikið upp á lágmörkin í fleiri greinum því í hástökki vantaði hann einungis 1 cm og 20 hundruðustu til að ná lágmarkinu í 200m.
Við þetta má bæta að Máni Snær stundar knattpyrnu af krafti með Umf. Selfoss og körfuknattleik hjá Umf. Hrunamanna.
Auk Mána Snæs voru tilnefnd blakkonan Sigríður Björk Marínósdóttir, Hafþór Ingi Ragnarsson, knattspyrnumaður og Perla María Karlsdóttir, körfuknattleikskona.