Hamar og Uppsveitir áttust við í stórleik áttundu umferðar 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld. Eftir mikla baráttu á báða bóga hafði Hamar 1-0 sigur.
Uppsveitamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og sköpuðu nokkrum sinnum stórhættu upp við mark Hamars. Inn vildi boltinn ekki og staðan var 0-0 í hálfleik.
Leikurinn snerist Hvergerðingum í vil í seinni hálfleik. Þeir voru mun sprækari framan af og enginn var ferskari en Máni Snær Benediktsson, sem skipti úr Uppsveitum í Hamar fyrr í mánuðinum. Hann lék fyrrum félaga sína grátt þegar hann kom Hamri yfir á 57. mínútu og í kjölfarið fengu Hamarsmenn nokkur dauðafæri til að gera út um leikinn en tókst ekki að skora.
Uppsveitamenn komust lítið áleiðis gegn sterkri vörn Hamars en eftir því sem leið á leikinn jókst pressa Uppsveita og þeir fengu tvö mjög góð færi á lokakaflanum en tókst ekki að skora.
Lokatölur 1-0 og Hamar lyfti sér upp í 6. sæti deildarinnar á meðan Uppsveitir eru enn á botninum og hafa ekki unnið leik til þessa.