Körfuknattleiksfélag FSu hefur fengið til liðs við þjálfarateymi sitt Spánverjann Manuel A. Rodriguez.
Eins og körfuboltaáhugamenn vita þjálfaði Manuel nýliða Skallagríms í Dominosdeild kvenna á síðasta keppnistímabili og náði frábærum árangri, fór með liðið í úrslit Maltbikarsins og í undanúrslit Íslandsmótsins.
„Við sem sem stöndum að FSU-KÖRFU erum himinlifandi að hafa landað slíkum stórlaxi. Það er meginstefna félagsins að leggja taustan grunn til að byggja á til langrar framtíðar. Leiðin að því markmiði er að bjóða öllum iðkendum ávallt Manuelúrvalsþjálfara og bestu aðstæður til að laða fram það besta í hverjum einstaklingi,“ segir í frétt á heimasíðu FSu.
Manuel mun starfa sem aðstoðarþjálfari með aðalþjálfara félagsins, Eloy Doce Chambrelan, við Akademíu FSu og með meistaraflokk karla sem leikur í 1. deild Íslandsmótsins. Auk þess mun hann starfa í öflugu þjálfarateymi yngriflokka.
Í samtali við fsukörfu.is sagði Manuel að hann væri mjög ánægður með að hafa náð samkomulagi við FSu fyrir næsta tímabil.
„Frá fyrsta degi skynjaði ég mikinn áhuga og velvild í minn garð og ég er mjög þakklátur fyrir það. Það eru forréttindi að fá að starfa með Eloy og ég veit að við munum vinna vel saman og verða öflugt teymi. Eftir meira en 15 ár í kvennaboltanum hlakka ég til að þjálfa karlalið, það verður ný reynsla fyrir mig. Ég er körfuboltaþjálfari og grundvallaratriðin eru þau sömu, og þó einhver munur kunni að vera á kynjunum líkamlega og andlega er ég tilbúinn að takast á við nýjar og krerfjandi áskoranir á mínum þjálfaraferli.“