Margrét útnefnd Íþróttamaður Hamars 2017

Badmintonkonan Margrét Guangbing Hu var útnefnd Íþróttamaður Hamars 2017 á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær.

Margrét vann silfurverðlaun á Unglingameistaramóti Íslands 2017 í flokki U13 og varð sömuleiðis HSK meistari síðastliðið vor þar sem hún sigraði í U15 ára aldursflokki en hún byrjaði að keppa upp fyrir sig um flokk á síðasta ári.

Margrét var boðuð í afrekshóp Badmintonsambands Íslands á árinu og einnig á unglingalandsliðsæfingar.

Þá hefur hún verið til aðstoðar þjálfurum á æfingum yngri barna hjá Hamri undanfarið ár og stendur sig sérstaklega vel þar. Í greinargerð með tilnefningu Hamars segir að Margrét sé virkilega góð fyrirmynd fyrir yngri keppendur badmintondeildarinnar, innan vallar sem utan.

Auk Margrétar, sem einnig var badmintonmaður ársins hjá Hamri, voru tilnefnd í kjörinu íþróttamenn ársins 2017 hjá hverri deild fyrir sig. Það voru þau Ragnheiður Eiríksdóttir, blakkona, Birta Marín Davíðsdóttir, fimleikakona, Hafþór Vilberg Björnsson, knattspyrnumaður, Helga Sóley Heiðarsdóttir, körfuboltakona og María Clausen Pétursdóttir, sundkona.


Íþróttamenn hverrar deildar hjá Hamri árið 2017. Ljósmynd/Hamar

Fyrri greinNaumt tap gegn toppliðinu
Næsta greinFerðamenn á meiri ferðinni austan við Vík