Marín Laufey Davíðsdóttir, HSK, hefur verið valin glímukona ársins 2010 en stjórn Glímusambandsins ákvað það á stjórnarfundi í gær.
Marín, sem aðeins er 15 ára gömul byrjaði að keppa í fullorðinsflokkum á þessu ári og hefur hún undantekningarlaust verið í verðlauna sæti. Hún er handhafi Bergþóruskjaldarins og vann hann í fyrsta skipti á skjaldarglímu HSK í febrúar.
Hún keppti á átta glímumótum á árinu 2010 og sigraði meðal annars í tveimur fyrstu umferðunum í Meistaramótaröð Glímusambandsins og leiðir þar stigakeppnina bæði í +65 kg flokki og opnum flokki kvenna. Marín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.
Þess má geta að Marín er einnig kjörin efnilegasta glímukonan árið 2010 og er hún fyrst kvenna til að hljóta báða þessar titla samtímis.
Pétur Eyþórsson, Glímufélaginu Ármanni, var valinn glímumaður ársins.