Marín Laufey glímukona ársins

Íþróttafólk ársins hjá sérsamböndum og nefndum ÍSÍ. Marín Laufey er lengst til vinstri á myndinni. Ljósmynd/Arnaldur
Í kvöld fór fram afhending viðurkenninga til íþróttafólks
sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ 2019 í Silfurbergi í Hörpu.
 
Einn Sunnlendingur var í þessum hópi en það er Marín Laufey Davíðsdóttir, glímukona úr HSK, sem var valin glímukona ársins í sjötta skiptið.
 

Marín Laufey hefur stundað glímu í um 13 ár og hlotið Freyjumenið fimm sinnum. Marín átti góðu gengi að fagna á glímuvellinum á árinu, en hún var í verðlaunasæti á öllum þeim mótum sem hún tók þátt í og þá má helst nefna tvo Evrópumeistaratitla í keltneskum fangbrögðum og verðlaun fyrir að vera kona mótsins á Evrópumótinu. Marín er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan.

Þess má geta að kærasti Marínar, Ásmundur Hálfdán Ásmundsson, UÍA, var valinn glímumaður ársins í fjórða skipti og tók systir Marínar, Karitas Harpa, við verðlaununum fyrir hans hönd.

Selfyssingar komust ekki á pall
Karlalið Selfoss í handbolta var eitt af þremur liðum sem átti möguleika á titlinum lið ársins og Patrekur Jóhannesson var einn þriggja efstu í valinu á þjálfara ársins. Selfyssingarnir þurftu hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir kvennaliði Vals í körfubolta og Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem þjálfaði karlalið Gróttu í knattspyrnu á liðnu sumri, var valinn þjálfari ársins.

Fyrri greinBarbára og Haukur íþróttafólk Árborgar 2019
Næsta greinLeiðinlegt að einhver nýti sér okkar neyð svona