Marín Laufey Davíðsdóttir, HSK, hefur verið útnefnd glímukona ársins 2024 af Glímusambandi Íslands. Þetta er í áttunda sinn sem hún hlýtur þessa viðurkenningu.
Marín Laufey keppti í sínum þyngdarflokki og opnum flokki kvenna á Bikarglímunni og Haustmóti GLÍ og vann báða flokka á báðum mótum. Hún sigraði Íslandsglímuna og hlaut nafnbótina glímudrottning Íslands, þá í sjötta sinn og hlaut einnig fegurðarglímuverðlaunin í kvennaflokki.
Hún keppti einnig á Opna Bretónskamótinu í backhold þar sem hún sigraði tvöfalt, bæði +70kg flokk kvenna og opinn flokk kvenna.
„Marín Laufey hefur verið ein fremsta glímukona Íslands undanfarin ár og er fyrirmyndar íþróttamaður jafnt innan vallar sem utan,“ segir í greinargerð Glímusambandsins.