Knattspyrnufélag Árborgar er úr leik í bikarkeppninni í knattspyrnu eftir grátlegt tap gegn Víði Garði á heimavelli í 32-liða úrslitunum í kvöld.
Leikurinn var markalaus allt þar til á fyrstu mínútu uppbótartíma að Helgi Þór Jónsson skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu og tryggði Víði 0-1 sigur.
Vindurinn setti töluvert sterkan svip á leikinn. Víðismenn voru meira með boltann en sköpuðu sér lítið og vörn Árborgar og Einar Guðni Guðjónsson, markvörður, lentu aldrei í teljandi vandræðum.
Sextán ár eru síðan Árborg komst síðast í 32-liða úrslit bikarkeppninnar en þá tapaði liðið gegn Stjörnunni í framlengdum leik.