Markalaust á Hvolsvelli – Stokkseyri tapaði úti

Uppskeran var rýr hjá þjálfurum sunnlensku liðanna í kvöld, þeim Yngva Karli og Óskari. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

KFR gerði jafntefli gegn Skautafélagi Reykjavíkur í 5. deild karla í knattspyrnu á Hvolsvelli í kvöld á sama tíma og Stokkseyri tapaði gegn Smára í Kópavogi.

Leik KFR og SR lauk með markalausu jafntefli en sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var. Rangæingar þurftu nauðsynlega á sigri að halda í kvöld því þeir eru að dragast aftur úr toppliðum Mídasar og Smára á lokakafla mótsins.

Stokkseyringar héldu sömuleiðis jöfnu og markalausu fram í seinni hálfleik gegn Smára. Heimamenn komust yfir með marki úr vítaspyrnu í upphafi seinni hálfleiks og bættu svo tveimur mörkum við á lokakaflanum. Lokatölur 3-0.

Staðan í B-riðlinum er þannig að KFR er í 3. sæti með 26 stig en Stokkseyringar eru í 7. sæti með 10 stig.

Fyrri greinMalbiksstöðin bauð lægst í yfirborðsfrágang
Næsta greinÁrborg selur byggingarrétt á níu lóðum