Markalaust á Selfossvelli

Eva Ýr Helgadóttir og Brynja Líf Jónsdóttir stíga dans inni í vítateig Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Gróttu í 1. deild kvenna í knattspyrnu í bongóblíðu á Selfossvelli. Það voru þó engir sambataktar inni á vellinum því hvorugu liðinu tókst að skora.

Það var fátt um færi í fyrri hálfleik en bæði lið fengu góð tækifæri undir lok hans. Á 36. mínútu slapp Embla Katrín Oddsteinsdóttir innfyrir vörn Gróttu en skaut yfir úr góðri stöðu.

Grótta var meira með boltann í seinni hálfleiknum en Selfyssingum gekk illa að skapa sér marktækifæri. Selfossvörnin var hins vegar þétt og fyrir aftan hana handsamaði Eva Ýr Helgadóttir þau fáu verkefni sem hún fékk úthlutað.

Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar, nú með 9 stig og Grótta er í 5. sætinu með 11 stig.

Fyrri greinÍbúafjöldi Rangárþings ytra nálgast 2.000
Næsta greinKFR vann grannaslaginn stórt