Markalaust í hamingjunni

Lazar Cordasic í leik með Ægi fyrr í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir tók á móti Kormáki/Hvöt í blíðskaparveðri á grasvellinum í Þorlákshöfn í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Þrátt fyrir frábærar aðstæður voru gæðin innan vallar ekki eins mikil. Ægismenn voru meira með boltann en gekk illa að skapa færi gegn fimm manna varnarlínu Kormáks/Hvatar.

Staðan var 0-0 í hálfleik og það breyttist ekki í seinni hálfleik, Ægismenn stýrðu leiknum og áttu óteljandi fyrirgjafir og hornspyrnur en færin voru af skornum skammti. Þegar tíu mínútur voru eftir fékk Brynjólfur Eyþórsson besta færi leiksins þegar hann slapp einn í gegn en skaut framhjá.

Staðan í deildinni er þannig eftir sjö umferðir að Ægir er í 4. sæti með 11 stig en Kormákur/Hvöt er í 9. sæti með 8 stig.

Fyrri greinSölvi semur við Selfoss
Næsta greinPóstfjör við Krambúðina