Á dögunum skilaði Jóhann Ólafur Sigurðsson meistararitgerð sinni í íþróttablaðamennsku en hann stundaði nám við Sheffield Hallam University í Englandi.
Í meistaraprófsritgerð sinni fjallaði Jóhann um þá þætti sem hafa haft áhrif á íslenska knattspyrnu síðustu áratugi meðal annars með tilliti til árangurs íslenska karlalandsliðsins sem hefur tryggt sér sæti í lokakeppni evrópumótsins í Frakklandi á næsta ári.
Jóhann hefur um nokkurt skeið haldið út eigin bloggsíðu; Sportbloggið,þar sem hann skrifaði greinar um íþróttir. Á svipuðum tíma og það var að fara í loftið voru Jóhann og Hrafnhildur Magnúsdóttir, sambýliskona hans, að velta þeim möguleika fyrir sér að fara í nám í útlöndum.
„Ég hafði einhvern tíma séð að það væri hægt að fara í háskólanám í íþróttablaðamennsku og því var komið kjörið tækifæri til að skoða það betur. Að sjálfsögðu leist mér vel á það þegar ég skoðaði það betur,“ segir Jóhann sem hefur mikinn áhuga á að skrifa um íþróttir, og þá einkum fótbolta, í framtíðinni.
Að sögn Jóhanns vissi hann nokkurn veginn hvaða þættir hafa stuðlað að því að íslensk knattspyrna er á þeim stað sem hún er á í dag. Hann ræddi við nokkra aðila, þar á meðal Sigurð Ragnar Eyjólfsson, fyrrum fræðslustjóra KSÍ. „Þegar hann var ráðinn til KSÍ hófust miklar endurbætur hvað snertir menntunarkerfi þjálfara. Það, ásamt til dæmis bættri aðstöðu þjálfara og hugarfari íslenskra leikmanna hefur haft mikil áhrif á íslenskak nattspyrnu,“ segir Jóhann.
Hann segist vera þeirrar skoðunar að bætt þjálfaramenntun og betri aðstaða hafi gert knattspyrnu betri en áður. „Það sem mér finnst mikilvægast er mikil menntun íslenskra þjálfara. Krakkar allt niður í fimm ára fái þjálfara sem eru mikið menntaðir en það þekkist ekki hjá nágrannaþjóðum okkar.
Vantar ítarlegri umjöllun
En hvað má bæta í umfjöllun um íþróttir á Íslandi? Jóhann segir að umfjöllun um íþróttir kvenna sé ábótavant, þó hún sé að batna jafnt og þétt. Það sé öllum ljóst að konurnar fá ekki næstum því sömu athygli og karlarnir.
„Annað sem mér finnst vanta í íþróttablaðamennsku hér á landi eru lengri greinar, þar sem farið er ítarlega yfir umfjöllunarefnið og það jafnvel rannsakað vel og vandlega. Þetta er eitthvað sem þekkist erlendis, en mér finnst of mikið um stuttar fréttir og augljóst að oft er verið að flýta sér mikið,“ segirJóhann Ólafur að lokum.