Markús Ívarsson í Vorsabæjarhól var í morgun sæmdur gullmerki Héraðssambandsins Skarphéðins á héraðsþingi sambandsins sem haldið er í Aratungu í dag.
Markús þarf ekki að kynna fyrir sunnlenskum íþróttaáhugamönnum en hann hefur um áratugaskeið starfað fyrir hreyfinguna og tekið virkan þátt í störfum HSK og Umf. Samhygðar. Hann hefur m.a. setið í stjórn HSK og var gjaldkeri Samhygðar í 39 ár, frá 1970 til 2009.
Markús hefur stundað frjálsar íþróttir frá barnæsku og verið leiðandi í blakstarfi Samhygðar sem hefur verið stórveldi í blakinu innan HSK.
Þá hefur hann staðið fyrir Flóahlaupi Samhygðar frá árinu 1979. Það ár hlupu tíu karlar en síðustu ár hafa þátttakendurnir verið á annað hundrað, karlar, konur og börn. Allir fá kaffi og kökur að loknu hlaupi og er Kökuhlaup Markúsar frægt meðal hlaupara um allt land.
Markús keppir enn í íþróttum en hann hefur m.a. keppt fyrir hönd HSK á Landsmótum UMFÍ 50+.